Burrata með bökuðum tómötum

Svei mér þá ef þetta er ekki einn besti smá- eða forréttur seinni tíma. Ég er fékk svipaðan rétt á dásamlegum veitingastað á Spáni í vor og gat ekki beðið eftir að koma heim og gera mína útgáfu. Það er hægt að undirbúa allt fyrirfram og setja réttinn svo saman rétt áður en hann er borinn fram en þessi uppskrift dugar fyrir tvo sem smá- eða forréttur.

50 mín

2
skammtar

Uppskrift

Hráefni

Tómatar og Burrata

  • 1 pakki Bragðgóðir tómatar
  • 1 stk Íslenskur Burrata

Stökkar hnetur

  • 200 g Valhnetur
  • 3 msk Sykur
  • 1 msk Smjör

Basilolía

  • 10 g Fersk basilblöð
  • 4 msk Ólífuolía
  • 1 stk Hvítlauksrif
  • 1 tsk Chili flögur
  • 1 msk Vatn

    Leiðbeiningar

    Leiðbeiningar

    • Byrjið á að skera tómatana í tvennt, veltið upp úr ólífuolíu, salti og pipar og bakið við 170 gráður í um það bil 30-40 mínútur eða þar til þeir eru sætir og vel krumpaðir.

    • Setjið valhnetur, sykur og smjör á pönnu. Kveikið á meðalháum hita og hrærið í allan tímann á meðan smjörið og sykurinn bráðnar alveg og þekur hneturnar. Þetta tekur um það bil 10 mínutur.

    • Takið þá af hitanum, hellið hnetunum á bökunarpappír og látið kólna alveg.

    • Setjið öll innihaldsefnin í basilolíuna í blandara eða blandið saman með töfrasprota.

    • Smakkið til með salti og pipar.

    • Setjið réttinn saman.

    • Leggið burrata ostinn á fallegan disk og skerið kross í toppinn á ostinum þannig að hann opnist eins og stjarna.

    • Toppið með bökuðu tómötunum, hnetunum, vel af basilolíu og njótið.