
Sjö dagar

Sjö dagar er áhugaverð og vel skrifuð saga af viku í lífi breskrar efri stéttar fjölskyldu.
Það eru að koma jól og í fyrsta sinn í mörg ár verður öll Birch-fjölskyldan samankomin. Meira að segja Olivia, eldri dóttir Emmu og Andrews – sem er yfirleitt víðs fjarri, önnum kafin við að reyna að bjarga heiminum – ætlar að koma heim til Weyfield Hall, gamla ættaróðalsins. Olivia kemur þó aðeins vegna þess að hún neyðist til þess. Hún er nýkomin til Bretlands eftir að hafa unnið við að hefta útbreiðslu farsóttar í annarri heimsálfu og verður að vera í sóttkví í vikutíma. Þar með verður fjölskylda hennar að beygja sig undir hið sama.
Fjölskyldan er því innilokuð næstu sjö dagana – og þar sem netsambandið er ansi gloppótt þurfa meðlimir hennar að hafa meira saman að sælda en þeim þykir þægilegt. Yngri systirin Phoebe, léttlynd og kærulaus, hugsar um fátt annað en tilvonandi brúðkaup sitt. Olivia á erfitt með að láta sig lúxusvandamál vestursins einhverju skipta og systurnar reyna á þolrif hvor annarrar.
Fjölskyldufaðirinn Andrew er gjarn á að loka sig af inni á skrifstofunni sinni þar sem hann skrifar hárbeitta og hæðnislega veitingahúsarýni og hugsar um gamla tíma þegar hann var ungur og hraustur stríðsfréttamaður með háleita drauma. Móðirin Emma lúrir hins vegar á leyndarmáli sem mun setja alla fjölskylduna á hvolf.
Í þessu mikla návígi er erfitt að halda hlutum leyndum til lengri tíma og smám saman koma hlutir í ljós sem meðlimir fjölskyldunnar hafa reynt að halda leyndum. Ekkert kemur þeim þó jafn mikið á óvart og óvæntur gestur sem birtist óforvarandis á tröppunum.
Þetta er skemmtileg bók. Söguhetjurnar eru svo afskaplega breyskar og marglaga, þau geta öll verið hálfóþolandi á köflum og eflaust margir sem geta speglað sig í brösóttum samskiptum innan fjölskyldunnar. Samtöl eru vel skrifuð og trúverðug og frásögnin flæðir vel áfram, ýmis áföll dynja á og sumt kemur mjög á óvart. Eins og í lífinu liggja svörin ekki alltaf ljós fyrir og alls ekki víst að fólk beri alltaf gæfu til að velja það sem er því fyrir bestu. Lesandanum stendur hreint ekki á sama um afdrif Birch-fjölskyldunnar og það hlýtur að vera markmiðið.
- Gerð : Kilja
- Höfundur : Francesca Hornak
- Tegund : Skáldverk
- Útgáfuár : 2019
- Tungumál : Íslenska